Minningargrein

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Minningargrein um Sigrúnu Sigurðardóttur sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 24. nóvember 2017.  Sigrún lést 14. nóvember og var jarðsungin 24. nóvember frá Háteigskirkju. Hún var stofnfélagi í Félagi um vipassana hugleiðslu og sat í stjórn félagsins frá upphafi.

 

Hún er létt á fæti á göngu í kyrrðinni í kringum Skálholtsbúðir. Með stelpulegt fasið og vakandi vitund. Fagnandi vitund, á kannski vel við. Hún varðveitir og nærir forvitni barnshugans og gleðst yfir smæstu undrum lífsins. Af henni drýpur djúpstæð viska þess sem gengið hefur lífsins veg með opið hjarta. Við hin, sem göngum við hlið hennar í Skálholti, meðfram Þingvallavatni í sumarkyrrðinni og yfir grasi grónar hæðarnar við Gaia-house í Englandi, njótum nándarinnar. Hún er með opinn faðminn fyrir ævintýrum lífins. Draumurinn er að fara í hugleiðslu- og yogaferð til Indlands þegar hún verður áttræð. Við hin gerum draum hennar að draumi okkar allra.  Að sjálfsögðu verður þetta hópferð. Það vill enginn missa af þessum leiðangri.  Aldurslaus og drífandi. Tilhugsunin sameinar okkur í tilhlökkuninni. Og í einlægri væntumþykjunni. Við höfum dvalið langtímum saman í þögninni þar sem orðin hljóðna og rödd viskunnar, innsæið, fær áheyrn. Sigrún nýtur þess að hlusta. Nýtur upplifunarinnar. Hvort sem hún er úti í náttúrunni, á kyrrðarvökum, í leikhúsinu eða í  óperunni. Hún smitar okkur hin með leiftrandi frásögnum af eftirminnilegum sýningum þegar kyrrðin er rofin og við sameinumst í hlátri og sögum og hugleiðingum um lífið og tilveruna við drekkhlaðin matarborðin. Og orðin og hláturinn óma þangað til við sameinumst aftur í þögninni á hugleiðslupúðanum. Hann er aldrei langt undan. Svartur og hlýr og fallegastur í heimi. Hún leggur metnað og ást í saumaskapinn þegar kyrrðarvökurnar fara stækkandi og fjölga þarf púðunum. Kyrrðinni fylgir ekki bara hlátur. Henni fylgja líka tár og traust og djúpstæð vinátta. Heimili hennar er okkur opið eins og hlýr faðmur. Þar setjumst við síðast á púðana aðeins nokkrum dögum fyrir andlát hennar þar sem við eigum ógleymanlegt kvöld.  Fallega viðarklukkan á veggnum slær lokatóninn í okkar síðustu hugleiðslu. Eftir stendur djúpstætt þakklætið. Þakklæti fyrir kærleiksríka vináttu og hlý samúð með öllum ástvinum okkar kæru vinkonu, Sigrúnu Sigurðardóttur.
Namaste,

Dharmahópurinn; Andrea Vilhjálmsdóttir, Ásta Arnardóttir, Hafdís Einarsdóttir, Hrefna Róbertsdóttir, Ingibjörg Valgeirsdóttir, Ragnar Sigurðsson, Steinunn Ólafsdóttir, Þórunn Hjörleifsdóttir.

Gaia House júní 2013

IMG_1808IMG_1832IMG_1804IMG_6657